30.12.2021

Góðir VM félagar

Í febrúar árið 2020 greindist fyrsta Covid - 19 smitið hér á á Íslandi. Þá var gripið til harðra aðgerða með grímuskyldu, fjarlægðartakmörkum og fjöldatakmörkunum. Við þekkjum þetta allt vel nú tæpum tveimur árum seinna. Þetta er búið að vera eins og rússibani fram og til baka. Við þurfum að passa þrif og spritta, höfum þurft að setja grímur upp og taka niður grímur.

Þessar aðstæður hafa eðlilega truflað hið daglega líf eins og við þekkjum það og haft veruleg áhrif á ýmsar atvinnugreinar. Þó er það þannig að margt í atvinnulífinu hefur gengið vel og jafnvel mjög vel þrátt fyrir heimsfaraldur og miklar ferðatakmarkannir. Þar mætti nefna sem dæmi fjármálafyrirtæki, matvöruverslanir, vátryggingarfélög, byggingaverslanir svo eitthvað sé nefnt. Þar er mikill hagnaður og arðsemin há. Því er það mjög mikilvægt þegar hagkerfið fer að rétta úr kútnum að við sem samfélag tryggjum að það sem til falli sé skipt með sanngjörnum hætti. Það er einfaldlega krafa okkar sem samfélags að við stöndum saman þegar dreifing hagnaðar á sér stað.

Það sem hrjáir okkur hjá VM mest um þessar mundir eru lausir kjarasamningar fiskiskipasjómanna og eru þeir búnir að vera lausir í rúm tvö ár. Það er að verða regla frekar en undantekning að að ekki gangi að ná samningu við SFS svo árum skipti. Er það auðvitað ekki boðlegt og framkoma sem ekki hægt er að líða. Að stór stétt launþega þurfa að sæta því að ekki náist saman um kjaramál þeirra.

Útgerðin hefur skilað miklum hagnaði að undanförnum og hefur hagnast að meðaltali um 20 milljarða á ári á síðustu 11 árum. Einnig höfum við minnt á að þegar samið var um hærri greiðslur í lífeyrissjóði fyrir flest allt launafólk í landinu, svo kallaða tilgreinda séreign, komu stjórnvöld á móts við fyrirtækin með lækkun á tryggingagjaldi, þar á meðal við útgerðarmenn en þeir stungu þeirri lækkun í sinn eigin vasa. Ennfremur hefur komið fram í tölulegum upplýsingum sem Deloitte kynnti á sjávarútvegsdeginum í Hörpu þann 19. október sl., að framlegð útgerðarfyrirtækja á síðasta ári nam 72 milljörðum króna og hagnaður 29 milljörðum. Þá liggur fyrir að Brim skilaði 2,9 milljarða hagnaði á 3 ársfjórðungi 2021, einnig hefur komið fram að á fyrstu níu mánuðum ársins hagnaðist Síldarvinnslan 9,2 milljarða króna. Á sama tíma neita fyrirtækin sjómönnum um sömu lífeyrisréttindi og annað launafólk í landinu hefur. Kröfur sem metnar eru á um 1,5 miljarð á ári þegar tekið hefur verið tillit til lækkunar á tryggingargjaldi.

Það er nóg komið af því að sjómenn sífellt líði fyrir dugleysi útgerðarinnar að ganga ekki til kjarasamninga sem fela í sér eðlilega og sanngjarna skiptingu á hagnaðarköku útgerðarfyrirtækjanna.

Við skulum samt horfa bjartsýn fram á veginn. Vonandi förum við að ná tökum á veirunni og líf okkar að færast nær því sem við þekktum fyrir covid.

Að lokum vil ég óska öllum farsældar á komandi ári.

Guðm. Helgi Þórarinsson formaður VM