2022
Af réttinda minni sjómönnum og arðgreiðslusugum!
Pistlar

Af réttinda minni sjómönnum og arðgreiðslusugum!

Í morgun þegar ég borðaði morgunmatinn yfir blöðunum þá varð mér gjörsamlega misboðið, ég varð svo reiður að ég hef ekki treyst mér til að skrifa þennan pistil fyrr en núna.

Kjarasamningar snúast um það að atvinnulífið og launafólk skipti með sér þeim ábata sem myndast og það er á hreinu að ábati sjómanna af heildarkökunni er alltaf að minnka. Þrátt fyrir að sjómenn séu á hlutaskiptum að þá minnkar ábatinn sjómanna vegna ógagnsæis í fiskverði. Þetta vita allir.

Nú hafa kjarasamningar fiskiskipasjómanna verið lausir á þriðja ár. Aðalkröfur sjómanna hafa verðið  að fá það sama í lífeyrissjóð og aðrir landsmenn, það er að atvinnurekendur borgi 11,5 % í lífeyrissjóð fyrir sjómenn eins og allt annað starfsfólk sem hjá þeim vinna. Einnig að kauptryggingin sem er lágmarkskaupið hækki til með sama hætti og önnur lágmarkslaun í landinu. Þessar kröfur eru metnar á 1,2 milljarða fyrir alla sjómenn á Íslandi.

Okkur hjá stéttafélagögum sjómanna hefur skilist að þetta væru kröfur sem mundi sliga útgerðina. Þessar sömu útgerðir og skila margra milljarða jafnvel tug milljarða hagnaði.

Nú var eitt sjávarútvegsfyrirtæki birta ársuppgjörið sitt, Síldarvinnslan.Þar kemur fram að hagnaður Síld­ar­vinnsl­unn­ar, ef miðað er við meðal­gengi á liðnu ári nem­ur  um 11,1 millj­arði króna og jókst því um 120% á milli ára. Þá kemur líka fram að  stjórn hef­ur lagt til við aðal­fund að greidd­ur verði um 3,4 millj­arða króna arður til hlut­hafa vegna reikn­ings­árs­ins 2021 og er það sam­kvæmt arðgreiðslu­stefnu fé­lags­ins.

Staðan er því þannig að útgerðarmenn og konur landsins vilja ekki einu sinni ræða það að sjómenn fái sama hlutfall í lífeyrissjóð og aðrir landsmenn, ekki nema að sjómenn greiði það sjálfir. Þeim er alveg sama þó að mannskapurinn hjá þeim hafi lægri örorkutryggingu, að sjómenn fái hlutfallslega minna í eftirlaun en annað launafólk. Þau eru að segja sjómönnum að þeim sé alveg sama um þá.

Svo virðist vera sem sjómenn, fólkið sem kemur með hráefnið að landi sé ekkert annað en kennitala á blaði, þetta snýst bara um að græða sem mest, og helst aðeins meira en það. Starfsfólkið skiptir það engu máli.

Það er hreint ótrúlegt að eitt fyrirtæki geti greitt meira í arð heldur en kröfur sjómanna eru í heild fyrir fiskiskipaflotann. Það virðist vera það eina sem þau hugsa um sem stjórna þessum fyrirtækjum er að greiða út sem mestan arð –  svokallaðar arðgreiðslusugur.

Ég velti því upp hér í dag hvort að kröfur sjómanna séu of litlar? Útgerðarmenn höfðu tækifæri til að semja til langs tíma ef þeir kæmu til móts við hógværar kröfur sjómanna.

Er sá tími kannski liðinn, og eigum við að bæta í?

Í kröfugerð okkar er síðasta setningin „við áskiljum okkur rétt að bæta við kröfum“