Málmiðnir og vélstjórn

Félagsmenn VM sinna fjölbreyttum störfum á sviði vélstjórnar og vélaviðgerða, málmsmíði og netagerðar. Starfsstéttirnar sem um ræðir eru: vélvirkjar, vélstjórar og vélfræðingar, blikksmiðir, rennismiðir, stálsmiðir, málmsteypumenn, mótasmiðir, netagerðarmenn auk ófaglærðra sem starfa innan greinanna.
Iðnaðarmenn sækja starfsréttindi sín í iðnaðarlögin og vélstjórar í lög um áhafnir skipa. Forsendur laga sem þessara eru að löggjafinn telur að einungis einstaklingar sem öðlast hafa viðeigandi menntun og þjálfun megi sinna þessum störfum vegna krafna um öryggi og almennaheill og/eða neytendavernd.

Um iðnaðarstörf gilda Iðnaðarlög (lög nr. 42/1978).

Í 8. grein laganna segir að iðngreinar sem reknar eru sem handiðnaður skuli ávallt reknar undir forstöðu meistara. Rétt til starfa í iðngreinum hafa meistarar, sveinar og nemendur í iðngreininni.
Í greininni er heimildarákvæði um að ráða megi ólært fólk til starfa undir stjórn lærðs iðnaðarmanns um ákveðinn stuttan tíma, þegar sérstaklega stendur á og brýn þörf er á auknum vinnukrafti í iðninni. Einnig segir þar að hver og einn geti unnið iðnaðarstörf fyrir sjálfan sig og heimili sitt og sinnt minniháttar viðhaldi fyrir opinbera stofnun eða fyrirtæki sem hann vinnur hjá.
Nánar er kveðið á um hvaða greinar um er að ræða í reglugerð (940/1999) um löggiltar iðngreinar.

Á síðari hluta ársins 2011 skipaði Iðnaðarráðherra nefnd til að fara yfir iðnaðarlögin. Skýrslu nefndarinnar má sjá hér.

Um störf vélstjóra á sjó gilda:

  • Lög nr. 30/2007 eru um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.
  • Reglugerð nr. 944/2020 er um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum.
  • Lög nr 76/2001 eru um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa.
  • Reglugerð 676/2015 er um menntun, þjálfun og atvinnuréttindi farmanna.   

Hér má sjá samhengi vélstjórnaráms, siglingatíma og réttinda skv. reglugerð 944/2020.

Hér má sjá samhengi fjölda vélstjóra, réttinda og framdrifsafls skv. reglugerð 944/2020 og lögum 30/2007.

Markmið laga um áhafnir skipa er að tryggja öryggi skipa og áhafna þeirra og efla varnir gegn mengun sjávar. Tvenn lög gilda um áhafnir íslenskra skipa sem skráð eru hér á landi. Lög um áhafnir farþega- og flutningaskipa og lög um áhafnir fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa. Markmiðum laganna skal náð með því að gera kröfur um menntun og þjálfun, aldur, siglingatíma, heilbrigði, sjón og heyrn þeirra sem starfa um borð og tryggja með því faglega hæfni áhafna miðað við stærð skips, verkefni og farsvið. Ísland er aðili að alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna (STCW), sem gildir fyrir kaupskip og farþegaskip með framdrifsafl yfir 750 kW.

Í iðnaðarlögum og lögum um áhafnir skipa er vísað til krafna um menntun sem eru útfærð nánar í námskrám. Í iðnaðarlögum (greinum 3, 9 og 10) eru tilgreind þau skilyrði sem fullnægja þarf til að fá leyfi til að reka iðnað og öðlast rétt til að kenna sig við löggilta iðngrein. Í þeim felst m.a. krafa um sveinspróf og/eða meistararéttindi. Í lögum um áhafnir skipa er vísað til þess að skólar sem uppfylla kröfur alþjóðasamþykktarinnar (STCW) annist menntun og þjálfun áhafna skipa. Menntamálaráðauneytið skal annast eftirlit með því að námskrár uppfylli alþjóðasamþyktina og Siglingastofnun skal hafa eftirlit merð gæðum kennslu.